Tekjur vegna erlendra ferðamanna sem koma með skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur námu yfir milljarði íslenskra króna í fyrra. Þessu greinir Vísir frá.

Samkvæmt upplýsingum Faxaflóahafna er áætlað að hver ferðamaður eyði að minnsta kosti 12 þúsund krónum í borginni. Tæplega 105 þúsund ferðamenn komu í fyrra með skemmtiferðaskipi til Reykjavíkur og eyddu því ferðamennirnir tæplega 1,3 milljörðum króna. Skipin greiddu einnig hafnargjöld til Faxaflóahafna sem námu 240 milljónum króna.

Katrín Sif Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Atlantik og umboðsmaður skemmtiferðaskipa hér á landi sagði í fréttum stöðvar 2 í kvöld að hagnaðurinn almennt af komu þessara ferðamanna væri þó mun meiri en þessar tölur segja til um.

„Flestir fara í rútuferðir en svo eru alltaf fleiri og fleiri sem kaupa sér dýrari skoðunarferðir, eins og útsýnisflug og jafnvel þyrluflug og aðra nýja afþreyingu,“ sagði Katrín.