Öll fyrirtæki geta og gætu orðið fyrir netárásum. Á síðasta ári urðu um 550.000 gagnagíslatökuárásir á heimsvísu en það sem af er ári 2021 eru þær yfir 1.000.000 talsins.

„Yfirgnæfandi meirihluti slíkra árása eru sjálfvirkar svo þó það séu litlar líkur á því árásaraðilar séu sérstaklega að beina athygli sinni að litlum íslenskum fyrirtækjum eru fyrirtækin alls ekki óhult því fyrirtæki sem hefur tölvukerfi er ekkert nema bara staðsetning eða símanúmer í símaskrá internetsins,“ segir Anton Már Egilsson, aðstoðarforstjóri Syndis.

„Það sem skiptir máli þegar svona árás ber að garði er að vera með góð, skilvirk og æfð viðbrögð sem byggja á viðbragðsáætlun. Í hvern hringi ég, hvernig stöðva ég árásina, hvar eru afritin mín, þarf ég að láta yfirvöld vita? Ef að kerfum, tölvum, netþjónum er ekki viðhaldið þá verða til veikleikar og þeir eru nýttir að mest á sjálfvirkan hátt. Veikleikinn finnst og óværunni er komið fyrir nokkuð sjálfvirkt,“ segir Anton.

Stafræn vöktun

Hann segir að fyrirtæki séu orðin vön því að viðhafa vöktun í formi eftirlitsmyndavéla og skynjara í húsnæði, vinnusvæðum o.s.frv en í nútíma umhverfi starfa fá fyrirtæki án tölvukerfa sinna og hjá mörgum eru viðskipti að mestu komin í stafrænan heim.

„Með þessum gríðarlega mikla vexti netárása þarf einfaldlega að stíga skrefið og setja upp sambærilega sólarhrings öryggisvöktun á stafrænu umhverfin. Oftar en ekki eru óprúttnir aðilar komnir inn fyrir varnir fyrirtækja löngu áður en látið er til skarar skríða t.d. í gagnagíslatöku,“ segir Anton ennfremur.