Mikil harka virðist vera hlaupin í samkeppni bílaumboðanna. Vísbending um það er auglýsing Brimborgar í gær undir fyrirsögninni „Ford skorar á Toyota“, en yfirfyrirsögnin er „Septemberlandsleikur Ford“. Á móti býður Toyota ferðapakka með hverjum bíl, að verðmæti 550.000 krónur. Ford velti Toyota úr sessi í ágúst á lista yfir söluhæstu bíla mánaðarins og hyggst nú endurtaka leikinn.

Ford hefur því skorað á Toyota í verðsamkeppni í september og býður sérstakt tilboðsverð út mánuðinn. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Brimborg höfðar til Toyota- eigenda um að skoða sinn gang, gera samanburð og snúa sér frekar að Ford. Það er kannski ekki skrítið þar sem Toyota hefur í nær 19 ár samfellt verið söluhærri en samkeppnisaðilarnir á markaðnum hérlendis. Rétt er þó að geta þess að umtalsverður hluti af sölu Toyota er m.a. til bílaleigunnar Hertz, sem er í eigu sömu aðila.

Einstaka sinnum hefur keppinautunum þó tekist að skáka Toyota. Hekla, sem er umboðsaðili Volkswagen, Audi, Mistubishi og Skoda, skoraði t.d. hærra í sölutölum í vor, áður en Hertz gerði sín innkaup á Toyotabílum. Þess má geta að Hekla er líka með umboð fyrir Mercedes Benz og Kia í gegnum dótturfélög sín Öskju og Kiaumboðið.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .