Meira en tíu þúsund greinar hafa verið skrifaðar um eldgosið í Geldingadölum, samkvæmt umfjöllunarvakt Íslandsstofu sem leitar uppi greinar um gosið með leitarorðum. „Þetta hrúgast inn,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu.

„Það er ofboðslega mikið af stórbrotnu myndefni sem hefur verið að birtast á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum sem hjálpa til að dreifa þessum fréttum víðar. Þetta er að varpa mjög stóru kastljósi á Ísland sem eykur vitund um landið,“ segir Sigríður og bætir við að Íslandsstofu hafi borist töluvert mikið af fyrirspurnum erlendis frá vegna gossins.

Hún segir að umfjallanir um gosið hafi verið mjög hófstilltar. Þær séu því líklegri til að skapa áhuga frekar en ótta, sem er gríðarlega mikilvægt því fréttir af eldgosum skapi oft hugrenningatengsl um að það sé einhver hætta á ferðum. Fyrstu viðbrögð Íslandsstofu hafi verið að koma á framfæri upplýsingum um gosið og þá sérstaklega að það væri lítið og ekki væri hætta sem stafaði gagnvart fólki eða innviðum.

Áhugi ferðamanna á Íslandi sem áfangastað hefur þó ekki aukist verulega enn sem komið er vegna gossins, sé horft til ferðatengdra leita á Google.

„Við sáum að það var lítil aukning þrátt fyrir þessa miklu fjölmiðlaumfjöllun. Þetta er ekkert í líkingu við aukninguna sem við sáum við Let it out herferðina síðasta sumar. Við sjáum ekki enn þá að gosfréttirnar leiði til þess að fólk horfi hingað í auknum mæli sem áfangastað. Hins vegar er þetta gott upp á vitund um landið. Svo er það okkar að nýta þennan áhuga með markvissum aðgerðum, nýta umfjöllunina þannig að fólk vilji bóka ferðir hingað þegar aðstæður til þess skapast,“ segir Sigríður.

Ef gosið stendur lengi líkt og fjallað hefur verið um þá gætu mikil tækifæri falist í gosinu sem áfangastað, að sögn Sigríðar.

„Þetta getur orðið mjög þekktur og eftirsóknarverður áfangastaður. Það er magnað að sjá nýjan áfangastað verða til. Staðsetning er svolítið merkileg af því að þetta er að gerast á svæði Reykjanesjarðvangs (Reykjanes UNESCO Global Geopark). Hann hefur það hlutverk að nýta þessi sérstöku jarðsögu svæðisins til verðmætasköpunar. Þannig að það er alveg gríðarlega merkilegt að sjá þetta gerast akkúrat þarna, þar sem það eru þegar innviðir í kring.“

Sigríður segir að verið sé að skoða hvaða tækifæri felast í gosinu og að Íslandsstofa fundi þessa dagana með Markaðsstofu Reykjaness og Reykjanesjarðvangi. Auk þess séu heimamenn farnir að kanna aðgengismál á svæðinu.

Einnig hafi verið unnið í samstarfi með RÚV um að koma upp streymi af eldgosinu sem er aðgengilegt fyrir erlenda fjölmiðla. Íslandsstofa er svo með almannatengslastofur á lykilmörkuðum sem deila streyminu, gera myndir af gosinu aðgengilegar og svara fyrirspurnum frá erlendum miðlum.