Einkafjárfestingarsjóðurinn CVC Capital Partners mun ekki gera yfirtökutilboð í bresku verslunarkeðjuna J. Sainsbury. Þar með lýkur um stund baráttu um fyrirtækið, en síðustu tíu vikur hafa verið væntingar um að hópur einkafjárfestingarsjóða, sem var leiddur af CVC, myndi ráðast í skuldsetta yfirtöku á félaginu. Á þeim tíma hefur gengi bréfa Sainsbury hækkað mikið.

Í kjölfar þess að tilkynning barst frá CVC um að ekki hafi náðst samkomulag við helstu eigendur Sainsbury um verðið á fyrirtækinu tók gengi bréfa þess að falla í kauphöllinni í London. Það var komið niður í 525 pens á hlut í gær. Gengi bréfa í Sainsbury var í 410 pens í upphafi febrúar, en þá lýstu einkafjárfestingarsjóðirnir yfir áhuga á sínum á yfirtöku verslunarkeðjunnar. Eftir því sem verðið á bréfunum hækkaði tóku einkafjárfestingarsjóðirnir að draga sig úr hópnum þar til að CVC stóð einn eftir.

Síðasta tilboð CVC, nam 582 pensum á hlut, en helstu eigendur verslunarkeðjunnar, Sainsbury-fjölskyldan sem fer með átján prósenta hlut, höfðu ekki áhuga á tilboði undir 600 pensum á hlut. Breska dagblaðið The Guardian fullyrðir að Robert Tchenguiz, helsti samstarfsaðili Kaupþings á Bretlandseyjum og stjórnarmaður í Exista, hafi verið sömu skoðunar. Tchenguiz á tæp fimm prósent í Sainsbury.

Áhuga einkafjárfestingarsjóðanna er sagður hafa stafað af þeim verðmætum sem felast í fasteignum Sainsbury víðsvegar um Bretland. Talið er að heildarvirði þeirra nemi um 7, 5 milljörðum breskra punda.