Umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á rekstri tölvuleikjaframleiðandans Gogogic síðustu vikur. Framkvæmdastjórinn, Jónas Anton Björgvinsson, er hættur störfum hjá fyrirtækinu og í stað hans er kominn Guðmundur Bjargmundsson, fyrrverandi þróunarstjóri fyrirtækisins. Þá hefur verið gerður dreifingarsamningur við leikjafyrirtækið SEGA, sem á að tryggja rekstur Gogogic á árinu. Jónas segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann hafi talið að þetta hafi verið rétt tímasetning fyrir hann að stíga til hliðar. Hann situr áfram í stjórn Gogogic og kemur ennþá að rekstri fyrirtækisins.

Magnús Ragnarsson, stjórnarformaður Gogogic, segir í samtali við Viðskiptablaðið að skorið hafi verið eins mikið niður í yfirstjórn og yfirbyggingu hjá fyrirtækinu og hægt var. Gogogic gerði nýlega samning við alþjóðlega leikjafyrirtækið SEGA um dreifingu á leik fyrirtækisins, Godsrule. „Leikurinn er kominn í svokallaða beta-prófun og er stefnt að útgáfu hans í febrúar. Í þessum bransa er þó ekkert víst fyrr en það er fast í hendi þannig að þetta getur eitthvað breyst.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.