Yfirdráttarlán heimilanna námu tæpum 75 milljörðum króna í lok nóvember, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands.

?Um er að ræða sögulegt met í krónum talið. Að jafnaði skuldar hver Íslendingur um 250 þúsund krónur í yfirdrátt samkvæmt þessu," segir greiningardeild Íslandsbanka.

Greiningardeildin segir yfirdráttarlán heimila hafa vaxið umtalsvert síðustu misserin eða um tæpan 21 milljarð króna frá ársbyrjun sem jafngildir nær 40% vexti.

?Á þessum lánum eru ríflega 20% vextir. Einkaneysla hefur vaxið mun hraðar en kaupmáttur neytenda á árinu og bilið hefur verið brúað að hluta með lántöku af ýmsum toga, þar með talið yfirdráttarlánum," segir greiningardeild Íslandsbanka.

Heimilin í landinu skulda innlánsstofnunum í heild um 531 milljarð króna en þar af er megnið í verðtryggðum skuldabréfum eða 399 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands. Verðtryggðar skuldir heimila gagnvart innlánsstofnunum hafa vaxið um rúma 200 milljarða króna á árinu eða yfir 100%.

?Ætla má að sá gríðarlegi vöxtur skýrist af sókn banka og sparisjóða inn á húsnæðislánamarkaðinn. Heimilin virðast ekki hafa nýtt rýmri möguleika í húsnæðislánum til að greiða niður yfirdráttarlán. Hins vegar má velta því fyrir sér hvort yfirdráttarlánin hefðu vaxið hraðar á árinu ef íbúðarlán bankanna hefðu ekki komið til," segir greiningardeild Íslandsbanka.