Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra boðar kjarajöfnun hjá starfsmönnum heilbrigðisstofnana. Þeir sem beri mikið úr bítum eigi að leggja meira af mörkum í niðurskurðinum framundan.

Hann segist aðspurður ekki óttast að heilbrigðisstarfsmenn, svo sem læknar, flýi land.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegu viðtali við Ögmund í Viðskiptablaðinu.

Hann segir að um 70 til 80 prósent af útgjöldum heilbrigðiskerfisins sé launakostnaður. Það verði því ekki sparað í heilbrigðisþjónustunni án þess að það komi við heildarlaunakjör einhverra.

„Nei, það er ekki undir nokkrum kringumstæðum verið að lækka kjarasamningsbundin laun. Alls ekki. Kjörin skerðast hins vegar hjá ýmsum þegar dregið verður úr yfirvinnu, akstursgreiðslum og ýmsum aukagreiðslum sem ekki eru kjarasamningsbundnar."

Þá segir hann fyrirsjáanlegt að verulega þurfi að draga úr vaktavinnu og bakvöktum þar sem það sé hægt. Vaktavinnufyrirkomulag muni því breytast. „Við viljum halda störfum eftir því sem við getum og að verðmætin jafnist út á fleiri aðila. Það er markmiðið," segir hann.

Ertu ekkert hræddur um að heilbrigðisstarfsfólk og þar með læknar flýi land ef launakjör verða skert?

„Almennt held ég að læknar hugsi eins og aðrir Íslendingar, að við séum saman í þessum vanda, að við séum á sama báti og að við ætlum saman að leggjast á árarnar. Læknastéttin hefur alltaf þegar á hólminn er komið reynst mjög félagslega ábyrg. Hún yfirgefur ekki þjóð sína fyrir nokkrar krónur."

Nánar er rætt við Ögmund Jónasson heilbrigðisráðherra í Viðskiptablaðinu .