Stephen Elop, fyrrum forstjóri Nokia, mun fá 25,4 milljónir Bandaríkjadala í starfslokagreiðslu eða ríflega 3 milljarða íslenskra króna, þegar samningurinn um kaup Microsoft á farsímahluta Nokia gengur í gegn. Microsoft mun greiða 70% af starfslokagreiðslunni. Frá þessu er greint á vef BBC.

Jan Vapaavuori efnahagsráðherra Finnlands furðar sig á upphæð lokagreiðslunnar. „Mér finnst erfitt að átta mig á forsendum bónusgreiðslunnar,“ segir hann. Þá sagði Jyrki Katainen, forsætisráðherra, í samtali við finnsku fréttasofuna Yle að greiðslan væri svívirðileg og að fólk teldi hana ósanngjarna ekki síst á þeim tímum þegar miklir efnahagsvandar væru á ferð.

Stephen Elop starfaði hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Microsoft til ársins 2010 þegar hann tók við starfi forstjóra Nokia. Nú mun hann aftur hefja störf hjá Microsoft í kjölfar kaupa Microsoft á farsímahluta Nokia. Auk Elops munu um 3.200 starfsmenn Nokia fara yfir til Microsoft. Elop hefur verið orðaður sem hugsanlegur eftirmaður Steve Ballmer, núverandi forstjóra Microsoft, en stutt er síðan að Ballmer greindi frá því að hann hyggist láta af störfum.

Viðskiptablaðið greindi nýverið frá kaupum Microsoft á farsímahluta Nokia og nemur kaupverðið sjö milljörðum Bandaríkjadala eða rúmlega 840 milljarðar íslenskra króna.