Sir Jonathan "Jony" Ive, yfirhönnuður Apple, sakar samkeppnisaðila fyrirtækisins um að stela hönnun þess. BBC News greinir frá málinu.

Jonathan sat fyrir svörum á viðburði Vanity Fair sem haldinn var í San Francisco nýlega þar sem starfsferill hans var til umfjöllunar. Var hann meðal annars spurður út í hönnun kínverska tæknifyrirtækisins Xiaomi og hvort fyrirtækið væri að herma eftir hönnun Apple, en snjallsímar þess hafa þótt mjög líkir iPhone-símunum.

Jonathan kvaðst ekki líta á það léttvægum augum þegar önnur fyrirtæki hermi eftir hönnun hans, en vildi þó ekki tjá sig um Xiaomi sérstaklega. „Ég sé þetta ekki sem smjaður, ég sé þetta sem þjófnað,“ sagði Jonathan. Bætti hann við að hann hefði getað verið heima með fjölskyldunni um helgar í stað þess að leggja vinnu í hönnunina. Það kallist þjófnaður þegar menn steli hugverki annars og sé merki um leti. Slíkt sé aldrei í lagi.