„Hættan á því að einhver hafi skaðast, muni skaðast eða jafnvel deyja er raunveruleg,“ segir Gunnar Bjarni Ragnarsson, yfirlæknir lyflækninga krabbameina á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, í samtali við Fréttablaðið .

Þar er greint frá því að hundrað veikum hafi verið synjað um undanþágu um myndgreiningu af undanþágunefnd þrátt fyrir mat læknis á nauðsyn myndgreininga. Um 200 hafa fengið slíka undanþágu.

Þá bíða rúmlega þrjú þúsund manns eftir myndgreiningu, en verkfall geislafræðinga, lífeindafræðinga og náttúrufræðinga hefur nú staðið yfir í mánuð. Gunnar Bjarni segir stöðuna hrikalega og þess séu dæmi að það hafi orðið rof í krabbameinslyfjameðferð.

„Okkur finnst að þessar áhyggjur af stöðunni sem upp er komin hljóti að liggja hjá ráðamönnum,“ segir Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga, í samtali við Fréttablaðið. Segir hún að verkfallið sé löglegt úrræði til að fá kjarabætur.

„Það eru mjög reglulega veittar undanþágur. Afleiðingar af verkfallinu eru ekki á okkar ábyrgð. Við viljum koma að samningaborðinu en það er enginn vilji af hálfu ríkisins,“ segir Katrín.