Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna niðurstöðu Hæstaréttar þar sem hann gagnrýnir málatilbúnað ákæruvaldsins harðlega. Þar segir hann:

"Þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða og í samræmi við það sem ég vissi í hjarta mínu að myndi gerast. Í sjálfu sér er ekki mikið meira að segja á þessari stundu annað en það, að núna eru komnar fram lyktir í því máli sem þeir félagar Haraldur Johannessen og Jón H.B. Snorrason fóru af stað með, þegar þeir réðust inn í Baug 28. ágúst árið 2002. Fyrst henti Hæstiréttur 32 ákæruliðum frá og nú hefur verið sýknað í þeim átta liðum sem eftir stóðu. Sérstakur saksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, var skipaður í málið og í stað þess að meta það sjálfstætt hélt hann þessari vitleysu áfram. Hann flutti það sem eftir var af ákærunni í héraði og fyrir Hæstarétti. Við flutning málsins í Hæstarrétti í síðustu viku viðhafði hann mjög ósmekkleg og ómakleg ummæli um mig og líkti mér við fjósamann sem stæli mjólkinni úr kúnum sem honum væri treyst fyrir. Sýknudómur Hæstaréttar í dag leiðir á hinn bóginn í ljós að það er hann sjálfur, Sigurður Tómas, sem er hinn eiginlegi fjósamaður í málinu. Hann situr í forinni sem þeir Haraldur Jóhannessen og Jón H.B. Snorrason skildu eftir sig þegar þeir hrökkluðust frá málinu."