Kjalar hf., félag í eigu Ólafs Ólafssonar, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna forsíðufréttar Viðskiptablaðsins í dag. Í fréttinni kom fram að gjaldeyrisskiptasamningur Kjala við Kaupþing hafi verið endurnýjaður 6. október 2008 og að hann hafi átt að gera upp 14. október. Deilur eru milli slitastjórnar Kaupþings og Kjala um við hvaða gengi eigi að gera samninginn upp. Verði hann gerður upp á því gengi sem Kjalar vill þá verður hagnaður félagsins af honum 115 milljarðar króna. Kaupþing féll 9. október. Félag í eigu Ólafs Ólafssonar var á meðal stærstu eigenda Kaupþings fyrir fall hans.

Yfirlýsing frá Kjalari hf. 14.2. 2011:

Vegna frétta af yfirstandandi málaferlum milli Kjalars hf. og slitastjórnar Kaupþings banka um uppgjör á gjaldmiðlaskiptasamningum Kjalars vill félagið koma eftirfarandi á framfæri:

1)    Skömmu eftir hrun gerði Kjalar samkomulag við lánardrottna sína um úrvinnslu á eignum félagsins og var í því skyni skipuð sérstök lánardrottnanefnd til að vinna með stjórn og stjórnendum félagsins. Allar ákvarðanir um ráðstöfun eigna eru bornar undir þessa nefnd sem skipuð er fulltrúum lánardrottna.

2)    Kröfur á þessum tíma voru um 100 milljarðar og skiptust þær  gróflega þannig að Arion banki var með um 75% af kröfum, Glitnir banki með um 15% af kröfunum og Egla (fyrrverandi dótturfélag Kjalars, nú í eigu kröfuhafa þess félags sem einkum eru lífeyrissjóðir), 10%.

3)    Eignir  Kjalars  eru nú um  6 milljarðar í reiðufé og skuldabréfum ásamt  hlut félagsins í HB Granda sem er veðsettur Arion banka. Auk þessa er umræddur gjaldmiðlaskiptasamningur meðal eigna Kjalars.

4)    Ljóst er að gjaldmiðlaskiptasamningurinn veldur miklu  um skiptingu eignanna.  Ef Kjalar vinnur málið,  skiptast allar eignir milli Glitnis og Eglu. Ef Kjalar tapar málinu,  gildir framangreind skipting samanber lið tvö. Í ljósi þessa var einróma samkomulag í lánardrottnanefndinni um að ekki væri unnt  að skipta eignum Kjalars þar til niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

5)    Óháð niðurstöðu málsins er hinsvegar ljóst að eigendur Kjalars hf. munu aldrei fá krónu út úr félaginu.