Viðskiptablaðið fjallaði í dag um gögn úr húsleitum sérstaks saksóknara í Banque Havilland í Lúxemborg en blaðið er með undir höndum málssjöl frá dómstólum í Lúxemborg vegna málsins.

Fram kom að margir helstu stjórnenda, eigenda og viðskiptavina Kaupþings höfðu mótmælt því fyrir dómsstólum í Lúxemborg að gögnin yrðu afhent sérstökum saksóknara.

Ólafur Ólafsson
Ólafur Ólafsson
© vb.is (vb.is)
Líkt og sést á þessu málsskjali var Ólafur einn þeirra sem mótmælti afhendingu gagnanna. Hægt er að stækka myndina með því að tvísmella á hana.

Meðal þeirra sem mótmæltu var Ólafur Ólafsson og fjögur félög í hans eigu. Í tilefni af umfjöllum Viðskiptablaðsins, og í kjölfarið annarra fjölmiðla, um haldlagningu gagnanna hefur Ólafur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„ 1.  Undirritaður gerði engar athugasemdir við það að gögn, sem sérstakur saksóknari  fór fram á og tengdust umræddri rannsókn, yrðu afhent.

2.  Í engu var mótmælt að gögn þeirra fyrirtækja sem komu að þeim viðskiptum sem til rannsóknar eru, sem og persónuleg gögn í Kaupþingi, yrðu afhent.

3.  Mótmælt var að gögn, sem í engu tengdust umræddum viðskiptum og gögn fyrirtækja sem ekki voru lengur í minni persónulegu eigu og tengdust ekki þessum viðskiptum, yrðu afhent.

4.  Húsrannsóknir eru eðlilegur hluti af rannsóknarferli yfirvalda. Jafn sjálfsagt á að vera að slíkum húsrannsóknum sé markaður skýr og sanngjarn rammi.

Virðingarfyllst,
Ólafur Ólafsson“