Í framhaldi af úrskurði Samkeppnisráðs vegna kaupa Símans í Skjá einum annars vegar og samruna 365 ljósvakamiðla og Og Vodafone hins vegar vill Síminn koma eftirfarandi á framfæri: Samkeppnisráð féllst með ákveðnum skilyrðum á kaup Símans í Skjá Einum og samruna 365 og Og Vodafone. Meginniðurstaða úrskurðarins er að eftirsótt sjónvarpsefni skuli til lengri tíma litið vera aðgengilegt öllum dreifingaraðilum. Símanum eru jafnframt sett ýmis skilyrði fyrir kaupunum sem eru ítarleg og ströng.

Markmið Símans er að byggja upp stafrænt sjónvarpsdreifikerfi á landsvísu. Síminn átti í viðræðum við aðila á sjónvarpsmarkaði á síðasta ári, þar með talið 365 (þá Norðurljós). Þegar slitnaði upp úr þeim viðræðum festi Síminn kaup á ráðandi hlut í Skjá einum og tryggði sér rétt á enska boltanum. Eftirsóknarvert efni er enda forsenda þess að viðskiptavinir nýti sér þjónustu á sjónvarpsmarkaði en Síminn leggur í auknum mæli áherslu á afþreyingu í sinni þjónustu. Nái markmið úrskurðarins fram að ganga er aðgengi neytenda að eftirsóttu efni á starfrænu formi orðið greiðara.