Vegna frétta um skattrannsókn á FL Group/Stoðum á vb.is um helgina vill Skarphéðinn Berg Steinarsson, fyrrum stjórnarformaður félagsins koma eftirfarandi á framfæri:

Um helgina hefur vb.is verið með tveggja hluta greinaflokk um skattrannsókn á FL Group. Þar segir m.a. að til hafi staðið að kyrrsetja eignir tveggja fyrrum stjórnarformanna og forstjóra FL Group, sem nú heitir Stoðir, í tengslum við rannsókn skattayfirvalda á málum þeim tengdum. Vegna þess vil ég taka eftirfarandi fram:

Skattrannsóknastjóri hefur um alllangt skeið haft skattskil FL Group hf. til skoðunar. Í tilefni þess var ég kallaður til skýrslutöku hjá embættinu 22. júní 2009. Í skýrslutökunni kom skýrt fram hvaða álitaefni væru til skoðunar en það voru atriði í skattskilum félagsins sjálfs. Ekkert þeirra varðaði mig persónulega og aðild mín að málinu var einvörðungu vegna stjórnarstarfa í félaginu á þeim tíma er rannsóknin tók til. Ef það væri niðurstaðan að rangt hefði verið talið fram þá kæmi til endurálagningar hjá FL Group, nú Stoðum, sem er fyrirtæki sem enn starfar og ber ábyrgð á sínum skuldbindingum.

Síðan í júní 2009 hef ég ekki heyrt af umræddri rannsókn þar til síðasta vetrardag að fjölmiðlar flytja fréttir af því að skattrannsóknarstjóri hyggist krefjast kyrrsetningar á eignum mínum í tengslum við þessa rannsókn. Nærtækasta skýringin á fréttaflutningi þessum virðist vera að skattrannsóknastjóri hafi upplýst fjölmiðla um þessa ætlan sína því engum öðrum heimildarmanni er til að dreifa að því er best verður séð.

Fjöldamörg mál sæta rannsókn opinberra aðila og ríkir reiði í þjóðfélaginu vegna þeirrar stöðu sem við Íslendingar erum nú í. Við þær aðstæður er mikilvægt sem aldrei fyrr að stjórnvöld virði reglur réttarríkisins og standi vörð um það en reki ekki mál sín með upphrópunum í fjölmiðlum. Slík vinnubrögð kunna að afla vinsælda um stundarsakir en byggja ekki upp réttlátt samfélag. Stjórnvöld sem ekki virða þessar reglur kunna bæði að gera sig vanhæf til meðferðar einstakra mála og sek um lögbrot.

Við vinnslu greinaflokksins hafði vb.is ekki sambandi við mig til að afla sjónarmiða minna og gafst mér því ekki kostur á að koma þessum staðreyndum á framfæri við ritstjórnina.

Virðingarfyllst,

Skarphéðinn B. Steinarsson