Kjörnir fulltrúar Vinstri grænna og frambjóðendur þeirra til sveitastjórnarkosninga undirrituðu í dag yfirlýsingu um að flokkurinn muni alltaf beita sér gegn einkavæðingu. Í fréttatilkynningu frá flokknum kemur fram að ástæðan fyrir yfirlýsingunni sé tvíþætt. Annars vegar til að vekja athygli á hugmyndum um að hefja einkavæðingu á eignum eins og heilsugæslunni og Landsvirkjun sem flokkurinn telur mikilvægt að stöðva. Hins vegar vilja Vinstri grænir undirstrika að þau „munu ekki gera málamiðlanir þegar kemur að þessum málum.“

Jafnframt skorar flokkurinn á önnur framboð um að gera skýrt fyrir því hver stefna þeirra gagnvart einkavæðingu almannaeigna er.

„Orkufyrirtæki, flugvellir, vegakerfið og aðrir innviðir sem við höfum sem samfélag byggt upp saman eiga áfram að vera í sameiginlegri eigu okkar og þjóna okkur öllum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. „Þetta á einnig við um almannaþjónustuna; velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið og menntakerfið; en þar leggjum við einnig áherslu á að ef aðrir aðilar en opinberir taka að sér slíkan rekstur sé ekki tekinn arður út úr þeirri starfsemi enda á ekki að vera í boði að græða á velferðarþjónustu“.