Eins og komið hefur fram bíða margir erlendir fjárfestar sem tekið hafa stöðu í íslenskum hávaxtabréfum eftir því að skipt (e. swappa) yfir í dollara eða evrur.

Þessir aðilar eru nú með tregseljanleg krónubréf í höndunum og bíða gjalddaga þeirra.

Þegar þessir fjárfestar fá krónurnar í hendur á gjalddaga bréfanna geta þeir annaðhvort selt þær fyrir evrur eða endurfjárfest í íslenskum eignum.

„Ef Ísland verður búið, á þeim tíma, að lýsa því yfir að það muni sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru eru auknar líkur á því að þessir aðilar muni vilja endurfjárfesta í krónuskuldabréfum (gangandi út frá að krónan verði veik á þessum tíma) og njóta hárra vaxta alveg þangað til krónan er komin inn í evruna. Ef það gerist fá þessir fjárfestar fái því að lokum endurgreitt í evrum og njóti ef til vill hárra vaxta í evrum á lokatímabilinu frá því að evran er tekin upp og fram að gjalddaga bréfanna," sagði sérfræðingur á skuldabréfamarkaði.

Eftir því sem komist verður næst eru um 270 milljarðar króna í þessum krónubréfum og þar af eru 200 milljarðar króna varðir með kaupum á ríkisbréfum og innistæðubréfum en 70 milljarðar króna hafi verið varðir með skiptasamningum við íslenska viðskiptabanka og eru því í raun óvarðir nú.

Eftir því sem sérfræðingar á markaði segja þá mun það gerast á gjalddaga krónubréfsins er að milligönguaðili, eins og t.d. TD Securities, þarf að afhenda útgefanda bréfanna (t.d. EIB, NIB, KfW) krónur til að útgefandinn geti borgað eiganda bréfsins.

Til að gera það þarf TD til dæmis að selja innistæðubréf/ríkisbréf. Salan á ríkisbréfunum veldur auðvitað vaxtahækkun á þeim, en mun ekki hafa áhrif á krónuna.

Síðan er spurningin hvað gerir erlendi fjárfestirinn við krónurnar þegar hann fær þær í hendur. ,,Mín skoðun er sem sagt sú að ef yfirlýsing um ESB og upptöku evru væri komin aukist líkindi á vilja til endurfjárfestingar í krónubréfum fram að evruupptöku og þannig aukist líkindi á minni veikingu krónunnar.

Seðlabankinn ætti jafnvel að bjóða aðilum eins og TD Securities upp á samvinnu um að selja þessum aðilum ríkisbréf (sem skráð eru í Euroclear og Clearstream) í stað krónubréfanna," sagði heimildarmaður Viðskiptablaðsins.

Hann sagðist byggja þessa skoðun sína meðal annars á þeim gífurlega áhuga sem var á sínum tíma á kaupum fjárfesta á skuldbréfum í pesetum, escudos og lírum á háum vöxtum þegar fyrir lá að þessar myntir myndu fara inn í evruna.