Starfandi yfirmaður bandaríska skattsins IRS, Steven Miller, hefur sagt af sér að ósk Barack Obama, Bandaríkjaforseta vegna frétta um að skatturinn hafi mismunað stjórnmálasamtökum eftir því hvaða stjórnmálaskoðanir þau stóðu fyrir.

Steven Miller.
Steven Miller.

Eins og lesa mátti á vb.is á mánudaginn voru hægrisinnaðir aðgerðahópar og samtök, gjarnan þau sem kenndu sig við Teboðshreyfinguna, sérstaklega skoðuð. Í Bandaríkjunum er hægt að skrá pólitískar hreyfingar og samtök hjá skattinum og greiða slíkir aðilar ekki skatt.

Í frétt Financial Times segir að hneykslið eða ákvörðunin um að mismuna samtökunum hafi ekki verið rakin til Hvíta Hússins og sagði Obama að hann myndi ekki þola slíka hegðun í nokkurri opinberri stofnun. Þeir yrðu látnir axla ábyrgð sem tekið höfðu þessar ákvarðanir.

Þingmenn í báðum flokkum hafa tekið fréttunum illa og hafa gert kröfu um að málið verði rannsakað í þaula og að einhverjir verði látnir taka pokann sinn vegna þess. Ein af ástæðunum fyrir viðbrögðum þingmannanna er að yfirmenn IRS, sem vissu hvað var í gangi hjá stofnuninni, héldu því fram fyrir þingnefnd að engin mismunun ætti sér stað.

Í fyrirmælum sem gefin voru út í mars 2010 var ákveðið að sú deild IRS í Cincinnati sem sér um að veita slíka skattleysisvottun ætti að skoða sérstaklega þau samtök sem sótt hefðu um viðurkenningu hjá skattinum og hefðu orðin „Tea Party“, „Patriots“ (föðurlandsvinir) eða „9/12 Project“ í nöfnum sínum. Þá ætti einnig að skoða sérstaklega samtök sem gagnrýnin væru á það hvernig landinu væri stjórnað.