Roberto Azevedo, aðalframkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hefur sagt starfi sínu lausu, ári áður en skipunartímabilið rennur út. BBC segir frá .

Fráfarandi forstjórinn sagði ástæðurnar persónulegar, en hann hefði haft hag stofnunarinnar fyrir brjósti; þrátt fyrir að vera ekki fullkomin væri hún ómissandi til að halda uppi lögum og reglu í alþjóðaviðskiptum.

Stofnunin hefur verið gagnrýnd af Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að vera ósanngjörn gagnvart Bandaríkjunum í viðbrögðum sínum við kórónufaraldrinum. „Þeir hafa komið afar illa fram við okkur. Þeir líta á Kína sem þróunarland og veita þeim allskyns fríðindi sem Bandaríkin fá ekki,“ sagði Bandaríkjaforsetinn.

Trump – sem áður hafði hótað að afturkalla aðild landsins að stofnuninni – sagðist aðspurður vera sáttur með ákvörðunina.