Þorlákur Runólfsson, yfirmaður einkabankaþjónustu Kaupþings, hefur sagt upp hjá bankanum. Hann er þá enn einn yfirmaðurinn sem hætt hefur hjá bankanum undanfarna daga.

Fimm yfirmenn hjá Kaupþingi tilkynntu síðastliðinn mánudag Finni Sveinbjörnssyni, bankastjóra Kaupþings, um uppsagnir sínar. Um var að ræða framkvæmdastjóra áhættustýringar, dr. Birgi Örn Arnarson og þá dr. Óskar Haraldsson og dr. Hrafnkel Kárason sem báðir voru yfirmenn í áhættustýringu bankans og gengdu lykilhlutverki þar. Ljóst er brottför þessara einstaklinga, sem allir eru með doktorsgráðu í verkfræði og mikla bankareynslu, er mikill missir fyrir bankann. Þá tilkynntu jafnframt þeir Frosti Reir Rúnarsson, forstöðumaður verðbréfamiðlunar og Hannes Frímann Hrólfsson, aðstoðarframkvæmdastjóri fjárstýringar og markaðsviðskipta einnig uppsagnir sínar síðastliðinn mánudag. Eðli verkefna þeirra hefur vitaskuld gjörbreyst eftir fall bankans.