Andrew Pisker hefur sagt af sér sem yfirmaður Dresdner Kleinwort Wasserstein, dótturfélags hins þýska Dresdner banka. Tilkynning Dresdner Bank þess efnis kom í gær, í kjölfar ákvörðunar bankans um að ráða fyrrum yfirmann hjá HVB, Stefan Jentzsch, sem yfirmann nýs sameinaðs fyrirtækja- og fjárfestingarbanka. Bankastjóri Dresdner banka, Herbert Walter, var kjarnyrtur í yfirlýsingu bankans: "Andrew Pisker hefur sagt stöðu sinni lausri og mun yfirgefa bankann."

Dresdner er, að því er Financial Times segir, með þessu að færa áhersluna frá London í fjárfestingarbankastarfsemi sinni og hyggst nýta sér samlegð sem fylgir því að bjóða fyrirtækjum á heimamarkaði sínum í Þýskalandi upp á slíka þjónustu. Walter sagði að uppsagnir væru "mögulegar", þótt hann gæti ekki gefið nákvæmar tölur um þær sem fyrirhugaðar væru. Fólk sem þekkir til hefur áætlað að 2.000 störf séu í hættu, flest í London.