Fram kemur í frétt Bloomberg-fréttaveitunnar í dag að Gordon Scott, sviðsstjóri fjármálastofnanna hjá matsfyrirtækinu Fitch, telji að skuldatryggingaálag íslensku bankanna endurspegli ekki stöðu þeirra. Væri samhengi þarna á milli væri lánshæfiseinkunn Fitch mun lægri en hún er.

Bloomberg hefur eftir Scott að þær hræringar sem íslensku bankarnir lentu í fyrir tveimur árum hafi gert það að verkum að þeir hafa aukið fjölbreytileika tekna og skotið fleiri stoðum undir fjármögnun þeirra.

Hann segir þá vera í mun betri stöðu nú en þá og skuldatryggingaálag þeirra endurspegli sennilega ekki áhættuna í rekstrinum. Hann segist standa í þeirra meiningu að þeir hafi verið að fjármagna sig með útgáfu á skuldabréfum á mun hagstæðari kjörum en núverandi skuldatryggingaálag gefi til kynna.

Þrátt fyrir að Scott telji eiginfjárstöðu bankanna vera trausta segir hann að þegar allt kemur til alls þá skipti gæði þeirra eigna sem þeir hafa á sínum bókum ekki máli ef að markaðurinn snýst gegn þeim.

Hann segist vera þeirra skoðunar að skuldatryggingarálagið endurspegli mikla svartsýni varðandi horfur íslensku bankanna en bendir á að erfitt sé að finna jafnvægispunktinn sem endurspeglar hina raunverulega áhættu. Bloomberg hefur eftir Scott að markaðurinn með skuldatryggingar sé vanvirkur, sérstaklega þegar kemur að því að nota álagið til þess að fá áreiðanlegar upplýsingar.

Hann segir þó að matsfyrirtækið líti ekki algjörlega framhjá þessum markaði þar sem hann endurspegli að einhverju leyti væntingar fjárfesta.