Hæstiréttur Suður-Kóreu dæmdi í gær Chung Mong-koo, æðsta yfirmann Hyundai-bifreiðaframleiðandans, til þriggja ára skilorðsbundins fangelsis fyrir sviksamlegt athæfi.

Staðfestir dómurinn niðurstöðu undirréttar, þrátt fyrir mikinn þrýsting í Suður-Kóreu um að brugðist sé af hörku við spillingu í æðstu lögum fyrirtækja þar í landi. Embætti saksóknara hafði farið fram á sex ára fangelsisdóm.

Í niðurstöðu dómara kom fram að hann teldi sýnt að Chung hefði svikið út háar fjárhæðir en féð hafi einkum runnið til rekstrarins en ekki til einkanota.

Topparnir sagðir njóta  verndar

Suður-Kórea er fjórða stærsta hagkerfi Asíu. Um langa hríð hefur hatrammlega verið þráttað þar í landi um að framkvæmdavald og dómsvald haldi hlífiskildi yfir æðstu mönnum viðskiptalífsins vegna áhrifa þeirra og mikilvægi fyrir hagkerfið.

Reiknað er með að dómurinn blási nýju lífi í þessa umræðu, samkvæmt Reuters-fréttastofunni.

Aðeins eru tveir mánuðir síðan stjórnarformaður Samsung Group sagði af sér í kjölfar þess að vera kærður fyrir meint skattsvik og trúnaðarbrest.