Fjármálakerfi heimsins rambar á barmi kerfisbundins hruns, að sögn Dominique Strauss-Kahn, yfirmanns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). Strauss-Kahn hélt ræðu eftir að hafa fundað með George W. Bush, Bandaríkjaforseta, fjármálaráðherrum G7 ríkjanna og fulltrúum World Bank.

Strauss-Kahn sagði síversnandi greiðslugetu stærstu fjármálastofnana Bandaríkjanna og Bretlands hafa ýtt fjármálakerfinu alveg út á brúnina, en falli þær leiði það til kerfisbundins hruns fjármálageirans. Hins vegar væru fyrstu skref í samvinnu milli þróaðra ríkja og annarra að komast á rétta braut.

Orð hans hafa verið túlkuð á þann veg að hann telji mögulegt að hafa hemil á kreppunni.

BBC greindi frá.