Efnahagssamdrátturinn í Bandaríkjunum tefur fyrir þróun og markaðssetningu umhverfisvænna bíla og enn fremur má ætla að lægra eldsneytisverð í Bandaríkjunum dragi úr þeim hvata sem verið hefur til kaupa á slíkum bílum.

Þetta segir Scott M. Staley, yfirverkfræðingur í tvinn- og vetnisbílaþróun hjá Ford í Bandaríkjunum í fyrirlestri á Íslandi.

Hann bendir á að bensínverð hafi á tímabili verið komið yfir 4 dali gallonið en sé nú rétt yfir 2 dölum.

Hið háa eldsneytisverð hafi hins vegar sett mikinn þrýsting á bílaframleiðendur að setja á markað sparneytnari gerðir bíla og spurn eftir stórum og eyðslufrekum jeppum og pallbílum, sem áður hafi verið afar vinsælir þar í landi, hafi verulega dregist saman.

Staley var staddur hér á landi og kynnti m.a. frumgerð Ford Edge-vetnisbíls.

Í Bandaríkjunum er ein gerð tvinnbíls á markaði frá Ford, þ.e.a.s. jepplingurinn Escape, og í næsta mánuði kemur annar tvinnbíll á markað, Ford Fusion.

Staley segir að bílaiðnaðurinn í Bandaríkjunum bindi miklar vonir við nýkjörinn forseta landsins, sem hefur gefið til kynna að gripið verði til sértækra aðgerða til bjargar bílaiðnaðinum sem m.a. miði að því að stuðla að þróun og framleiðslu á umhverfisvænum bílum, þar á meðal tengitvinnbílum og vetnisbílum.

Fylgjast grannt með Íslandi

"Við höfum fylgst grannt með Íslandi. Allt frá því árið 2000 hefur verið umræða á Íslandi um vetnissamfélagið. Þjóðin býr yfir getu til að framleiða vetni án koltvísýringslosunar og vetni má nota til samgangna. Við vorum hér á landi þegar fyrsta vetnisáfyllingarstöðin í Evrópu var opnuð á Íslandi 2003 og tókum þátt í ráðstefnu sem haldin var hér á landi. Í apríl á þessu ári gerðum við samning við Nýorku um að setja vetnisbíl af gerðinni Ford Focus á götuna. Hann hefur verið í notkun hér í sjö mánuði."

Staley segir að ekki þyrfti að bæta við nema einni áfyllingarstöð í Reykjavík til þess að hægt væri að nota vetnisbíla í miklu magni í borginni. Það sem hins vegar komi í veg fyrir notkunina sé að vetnisbílar eru ennþá alltof dýrir.

Síðan Ford hóf þróunarvinnu í kringum vetnisbíla árið 1998 hefur mikið vatn runnið til sjávar. Nú, tíu árum síðar, hefur ekki fundist lausn á framleiðslukostnaðinum en Staley segir að Ford hafi það að markmiði að hafa lokið þróunarvinnu og geta svarað þeirri spurningu árið 2015 hvenær vetnisbílar verði samkeppnishæfur valkostur á almennum bílamarkaði.

Fram að því verði unnið að lausnum til að draga úr efnis- og framleiðslukostnaði og tæknilausnum, eins og geymslutönkum fyrir vetni.