„Það var yfirsjón að hafa ekki fulltrúa frá þessum samtökum inni,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Össur að því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun hverju sæti að Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafi ekki fengið sæti í starfshópi um mótun samningsafstöðu Íslands í landbúnaðarmálum í aðildarviðræðum stjórnvalda við Evrópusambandið.

Samtökin sendu Össuri á dögunum erindi þar sem farið var þess á leit að þau fái sæti í nefndinni. Samtökin sögðu m.a. í erindinu, að það skjóti skökku við að verslunin hafi ekki fulltrúa í starfshópnum þrátt fyrir mikil tengsl við heimilin í landinu.

Össur svaraði Þorgerði því til að hann hafi ekki tekið málið upp en muni gera það.

„Eins og alltaf lít ég jákvæðum augum á allar beiðnir,“ sagði hann.