Skattrannsókn á skattskilum manns vegna tekjuáranna 2009-14 hefur einnig áhrif á opinber gjöld eiginkonu hans. Þetta felst í niðurstöðu yfirskattanefndar (YSKN) en nefndin klofnaði í afstöðu sinni í málinu.

Málsatvik eru þau að í desember 2015 hóf Skattrannsóknarstjóri ríkisins (SRS) rannsókn á skattskilum mannsins árin 2009 og 2010. Fimm mánuðum síðar var honum tilkynnt að rannsóknin tæki einnig til tekjuáranna 2011 til 2014.

Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að maðurinn hefði ekki gert grein fyrir 102,6 milljóna króna söluhagnaði, vegna sölu á hlutabréfum í einkahlutafélagi hans til erlends félags, sem og tæplega 119 milljón króna söluhagnaði af bréfum í öðru félagi hans til sama erlenda félags. Átti það að hafa gerst árið 2011. Málið var í kjölfarið sent frá SRS til Ríkisskattstjóra (RSK).

Afleiðingin varð sú að stofn til auðlegðarskatts gjaldárin 2012-14 hækkaði um tæplega 3,3 milljónir króna hvert ár. Stofn til viðbótarauðlegðarskatts lækkaði um 157 milljónir króna gjaldárið 2012 en hækkaði um 686 milljónir króna gjaldárið 2013 og 775 milljónir króna síðasta árið. Hefur hér verið tekið tillit til 25% álags sem lagt var á vantalda stofna. Breytingarnar voru boðaðar í júlí 2018.

Umræddri breytingu var mótmælt af manninum og eiginkonu hans meðal annars á þeim grundvelli að aðeins hann hefði verið til rannsóknar en ekki hún. Rannsókn SRS hefði því ekki rofið fyrningu gagnvart henni og því væri óheimilt að endurákvarða opinber gjöld hennar. Þrátt fyrir það var breytingunum hrundið í framkvæmd að stærstu leyti. Var sú niðurstaða kærð til YSKN.

Umrædda nefnd skipa þrír menn í hverju máli og klofnaði nefndin í afstöðu sinni. Tveir nefndarmenn töldu að eignaframtal hjóna væri sameiginlegt. Vangæsla annars varðaði því með beinum hætti skattskil hins. Vék nefndin einnig að úrskurði sem hún kvað upp í febrúar í fyrra en þar var talið að endurákvörðun RSK á framtali manns gæti ekki haft áhrif á opinber gjöld fyrrverandi sambúðarkonu. Ekki var talið að atvik í málunum væru fyllilega sambærileg og ákvörðun RSK því staðfest.

Einn nefndarmaður skilaði sératkvæði í málinu og taldi að þar sem rannsókn SRS hefði ekki að neinu leyti beinst að konunni hefði tímafrestur til endurákvörðunar ekki verið rofinn. Gjaldárin 2012 og 2013, en ekki árið 2014, yrði því að telja „utan seilingar ríkisskattstjóra“ hvað konuna varðaði.