Yfirskattanefnd hefur úrskurðað um það hvernig ákvarða eigi fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum vegna sölu á spariskírteinum ríkissjóðs.

Skírteinin voru seld árið 2010 og voru vaxtatekjurnar skattlagðar í 18% skattþrepi fjármagnstekjuskatts sem var í gildi á þeim tíma. Yfirskattanefnd segir hins vegar að skattleggja bæri vaxtatekjur af skírteinum, sem féllu til á tímabilinu 1. janúar 1997 til og með 30. júní 2009, í 10% skattþrepi fjármagnstekjuskatts og að skattleggja bæri vaxtatekjur af skírteinunum sem féllu til á tímabilinu 1. júlí til og með 31. desember 2009 í 15% skattþrepi. Ríkisskattstjóri athugar nú hvernig bregðast skal við, m.a. hvort taka þurfi upp álagningu fjármagnstekjuskatts samkvæmt skattframtölum 2011 og 2012 að því er varðar vaxtatekjur af kröfum sem áunnist hafa á mörgum árum.