*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 18. júlí 2020 16:01

Yfirskattanefnd mildar skatta Bylgju

Yfirskattanefnd féllst á kröfu Bylgju Hauksdóttur um niðurfellingu breytinga ríkisskattstjóra á skattframtölum áranna 2011 og 2012.

Ritstjórn
Yfirskattanefnd er staðsett í Borgartúni 21
Haraldur Guðjónsson

Yfirskattanefnd felldi nýverið úr gildi hluta endurákvörðunar Skattsins á opinberum gjöldum Bylgju Hauksdóttur. Í mars á þessu ári var Bylgja dæmd í 20 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, og til greiðslu 178 milljóna króna sektar vegna sama máls en henni var gefið að sök að hafa vanframtalið tekjur sínar tekjuárin 2011 til 2016 um 196 milljónir króna. 

Um launagreiðslur frá aflandsfélagi Sæmarks-Sjávarafurða var að ræða. Skatturinn endurákvarðaði í árslok 2019 opinber gjöld vegna gjaldáranna 2011 til 2017. Bylgja undi úrskurðinum fyrir gjaldárin 2013 til 2017 en taldi að Skatturinn hefði ekki haft heimild til endurákvörðunar vegna gjaldáranna 2011 og 2012, sem hækkaði skattstofn um rúmar 45 milljónir króna, þar sem sex ára frestur tekjuskattslaganna væri liðinn. Skatturinn taldi hins vegar að tíu ára skattaskjólsregla ætti við.

Yfirskattanefnd féllst á rök Bylgju þar sem hún hafði ekki komið að skipulagningu brotanna, starfsemi aflandsfélagsins eða átt hlut í því.