Fjármálaeftirlitið framkvæmdi vettvangsathugun á útlánaáhættu Byrs sparisjóðs í september 2007 og gaf út skýrslu um hana í október sama ár, að því er kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sparisjóðina. Helstu niðurstöður voru þær að nokkuð skorti á yfirsýn yfir útlánamál hjá sparisjóðnum. Óljóst væri samkvæmt lánareglum hverjar útlánaheimildir sparisjóðsstjóra væru, en ekki mætti leika vafi á því hve háar upphæðir sparisjóðsstjóri mætti samþykkja án samráðs við aðra. Eins væru lánareglur óskýrar hvað varðaði hlutverk og heimildir lánanefndar, auk þess sem hún héldi ekki fundargerðir.

„Áhættustýring sparisjóðsins hefði ekki gott yfirlit yfir útlánaáhættu sparisjóðsins og ekki væru framkvæmd regluleg álagspróf eða aðrar greiningar til að meta útlánaáhættu. Var sérstaklega bent á að samkvæmt leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 2/2004 bæri sparisjóðnum að halda utan um umfang gengisbundinna útlána til aðila sem ekki hefðu tekjur í erlendum gjaldmiðlum. Athugun á nokkrum lántökum sparisjóðsins hefði leitt í ljós tryggingavöntun vegna lána og að skráning í tölvukerfum sparisjóðsins endurspeglaði ekki raunverulega stöðu láns. Þegar lánsbeiðni væri samþykkt þyrfti að koma skýrt fram ef veita ætti lán án trygginga og rökstyðja slíkt frávik frá meginreglu. Stjórnarmenn og starfsmenn sem tengdust málum sem kæmu fyrir stjórn til afgreiðslu ættu undantekningarlaust að víkja af fundi á meðan viðkomandi mál væri tekið fyrir. Við úttekt Fjármálaeftirlitsins á útlánaáhættu tengdri verðbréfum var gerð athugasemd við að markaðsverð trygginga vegna lána með veði í verðbréfum væri aðeins uppfært ársfjórðungslega. Fylgdi því töluverð tapsáhætta að eftirlit væri ekki framkvæmt daglega. Þá þyrfti að meta reglulega bréf sem væru til tryggingar útlánum sjóðsins en ekki skráð á verðbréfamarkaði. Vitnaði Fjármálaeftirlitið til skýrslu innri endurskoðanda Byrs sparisjóðs frá 15. maí 2007 þar sem fram kom að við skoðun á stærstu áhættuskuldbindingum sparisjóðsins hefði 2,7 milljarða króna vantað upp á að formlegar tryggingar væru til staðar í öllum tilvikum. Taldi Fjármálaeftirlitið að æskilegt væri að reglulega væri gert yfirlit yfir útlán þar sem tryggingar skorti.

Hvað varðaði mat á tengslum og meðhöndlun tengdra aðila var gerð athugasemd við að sparisjóðurinn héldi ekki með formlegum hætti utan um tengsl viðskiptavina sinna. Beindi Fjármálaeftirlitið því til forsvarsmanna Byrs sparisjóðs að það yrði gert. Tengsl viðskiptavina þyrftu að liggja fyrir þegar lán væri veitt og vera reglulega endurskoðuð og skráð. Fjármálaeftirlitið gerði einnig athugasemd við að aðila hefði vantað inn á yfirlit yfir viðskipti við venslaða aðila, en brýnt væri að slíkt yfirlit væri rétt á hverjum tíma. Þá væru afskriftareglur útlána ekki undirritaðar og hefðu ekki verið samþykktar af stjórn sparisjóðsins,“ segir í skýrslunni.

Ytri endurskoðandi sparisjóðsins sagði í svari til FME þann 7. febrúar 2008 að búið væri að samþykkja nýjar útlánareglur, fjölga starfsfólki í áhættustýringu og skerpa á verkefnum þeirra. Misræmi í útlánaheimildum sparisjóðsstjóra hefði verið lagfært og nýjar útlánaheimildir samþykktar af stjórn. Þá hefðu hlutverk og heimildir lánanefndar verið skilgreind og ráðinn lánastjóri sem bæri ábyrgð á stöfum lánanefndar og hefði meðal annars það hlutverk að rita fundargerðir lánanefndar. Starfsmönnum áhættustýringar hefði verið fjölgað úr einum í þrjá og auk þess hefði álagsprófum og greiningum fjölgað. Búið væri að leiðrétta rangar skráningar í tölvukerfi sem bent hefði verið á, og rætt hefði verið við starfsmenn um mikilvægi útlánaskráningar. Sparisjóðurinn hefði sett inn í nýsamþykktar útlánareglur ákvæði um að halda skyldi utan um fjárhagsleg tengsl viðskiptavina með formlegum hætti og þau þyrftu að liggja fyrir við upphaf lánveitingar. Fjárhagsleg tengsl viðskiptavina sem væru yfir 5% af eiginfjárgrunni skyldi endurskoða reglulega. Þá hefði innri endurskoðandi, í tengslum við utanumhald um venslaða aðila, útbúið lista yfir stjórnarmenn og starfsmenn og aðila tengda þeim og óskað eftir því að þessir aðilar staðfestu upplýsingarnar og létu innri endurskoðun vita um leið og breytingar ættu sér stað.