Tölvuleikjaframleiðandinn Activision hefur tilkynnt að hann ætli að kaupa King Digital, framleiðanda Candy Crush tölvuleiksins á 5,9 milljarða Bandaríkjadala, eða um 756 milljarða króna. Business Insider greinir frá.

Greiðslan mun öll fara fram í reiðufé en Activision mun kaupa hlutabréfin á 18 dali á bréf, eða um 20% yfir núverandi markaðsvirði. Hluthafar í King Digital eiga ennþá eftir að samþykkja yfirtökuna auk þess sem samkeppnisyfirvöld þurfa að samþykkja. Stjórnir beggja fyrirtækja hafa samþykkt samrunann en gert er ráð fyrir að yfirtökunni verði lokið næstkomandi vor.

Activision á fyrir fjölda tölvuleikjavörumerkja, m.a. Call of Duty, World of WarCraft, StarCraft, Hearthstone, Guitar Hero og Destiny.

Talið er að yfirtakan á Candy Crush sé hluti af herferð Activision til að komast frekar inn í farsímaleikjamarkaðinn, en einungis 5% af tekjum fyrirtækisins eru nú á þeim markaði.

Athugasemd: Upphaflega var talað um að kaupverðið væri 5,9 milljarðar króna. Rétt var að kaupverðið mun verða 5,9 milljarðar Bandaríkjadala. Þetta hefur nú verið breytt.