*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Erlent 6. ágúst 2020 07:02

Yfirtaka Google vindur upp á sig

Allsherjar rannsókn hefur verið sett á laggirnar sökum fyrirhugaðrar yfirtöku Google á Fitbit, heimildir BBC segja að henni mun ljúka í lok árs.

Ritstjórn
Google var stofnað árið 1998 og er markaðsvirði félagsins nú ríflega billjón dollarar.
epa

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur tilkynnt um allsherjar rannsókn á fyrirhugaðir yfirtöku Google á Fitbit, sem meðal annars framleiðir snjallúr. Ákvörðunin er tekin þrátt fyrir að Google hafi heitið því að nota ekki gagnagrunnsupplýsingar Fitbit í auglýsingastarfsemi.

Heimildir breska ríkismiðilsins BBC herma að rannsókninni ætti að ljúka 9. desember næstkomandi. Óttast er að með yfirtökunni myndi markaðsráðandi staða Google á auglýsingamarkaði aukast enn fremur. Google hefur neitað að tilefni yfirtökunnar sé að komast yfir meira magn gagna, fremur sé yfirtakan vegna tækjanna sem Fitbit hefur þróað.

Sjá einnig: Athugasemd við yfirtöku Google á Fitbit

Alphabet, móðurfélag Google, hafði samþykkt að greiða 2,1 milljarð dollara, andvirði 284 milljarða króna, fyrir félagið á síðasta ári. Kaupin hafa dregist á langinn meðal annars vegna athugasemdum Evrópusambandsins. 

Fitbit seldi sína fyrstu vöru árið 2009 og er nú með um 30 milljón virka notendur og selt yfir 100 milljón tæki. Markaðsvirði félagsins er um 1,7 milljarðar dollara andvirði um 229 milljarðar króna.

Stikkorð: Google Fitbit yfirtaka