*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 5. október 2017 14:06

Yfirtaka MAST jók kostnaðinn um 200%

Kostnaður sjávarútvegsfyrirtækja vegna yfirtöku MAST á skoðunarstofu í sjávarútvegi allt að tvöfaldaðist.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Lárus M.K. Ólafsson lögmaður Samtaka verslunar og þjónustu bendir á að í kjölfar þess að verkefni skoðunarstofu í sjávarútvegi voru færð aftur til Matvælakstofnunar hafi kostnaður hjá eftirlitsskyldum aðilum aukist um allt að 200%.

Innvistun verkefnanna varð árið 2011, og segir Lárus að það virðist vera sem ríkið haldi verkefnum hjá sér með ráðum og dáð og sama eigi um önnur eftirlitsskyld verkefni.

Meginstefnan að nýta ekki einkaframtakið

Þetta kemur fram í grein eftir Lárus á heimasíðu SVÞ þar sem hann bendir á að vel hafi gengið að fela einkareknum aðilum tiltekin verkefni í eftirliti án þess að slá af kröfum varðandi gæði og þjónustu og nefnir hann í því samhengi bifreiðaeftirlit.

Þannig hafi kostnaði hins opinbera verið haldið í lágmarki með samkeppni á sviðum sem hafi verið útvistað, en það virðist vera að það sé meginstefna hjá ríkinu að nýta sér það ekki að hans sögn.

Áfellisdómur Hæstaréttar og úttekt Ríkisendurskoðunar

„SVÞ vekja athygli á úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi MAST frá árinu 2013 þar sem segir m.a. að fjölgun verkefna samhliða hagræðingarkröfu hafi hamlað því að stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum með ásættanlegum hætti,“ segir Lárus meðal annars og bendir á að dregið hafi úr trausti þeirra sem eru undir eftirliti stofnunarinnar.

„SVÞ benda á samkvæmt nýlegri skýrslu um starfsemi MAST sem unnin var fyrir stjórnvöld þá eru þess dæmi í nágrannaríkjum að matvælaeftirliti hafi verið falið til þess bærum faggiltum aðilum og ekki er að ráða að slík framkvæmd hafi reynst illa.“

Lárus veltir því upp með hliðsjón af nýlegum áfellisdómi Hæstaréttar um starfsemi stofnunarinnar og miklu umfangi hennar hvort ekki væri betra að hún einbeitti sér að því að vera leiðbeinandi stjórnvald og þróa staðla um framkvæmd eftirlitsins.

Stikkorð: SVÞ MAST eftirlit Lárus M.K. Ólafsson