Yfirtaka Mosaic Fashions á tískuvöruversluninni Rubicon Retail Limited var samþykkt einróma á sérstökum hluthafafundi Mosaic í gær, segir í tilkynningu Kauphallarinnar.

Hefst nú samþætting reksturs fyrirtækjanna, en þau munu verða rekin að mestu sitt í hvoru lagi. Derek Lovelock, forstjóri Mosaic, segir að vörumerki Rubicon séu sterk og muni standa ein og sér, en þjónustuleiðir fyrirtækjanna verði samnýttar þar sem við á.

Uppgjör Mosaic sem birt var á hluthafafundinum var nokkuð undir væntingum greiningardeildar Glitnis, hagnaður Mosaic á öðrum ársfjórðungi nam 4,8 milljónum punda, en greiningardeildin hafði spáð 5,9 milljón punda hagnaði.

?Lægri afkomu á fjórðungnum miðað við spá okkar má rekja til þess að sala var undir væntingum. Spá okkar hljóðaði upp á 118 milljónir punda en raunin varð 113,3 milljónir. Þannig var EBITDA hlutfallið í takti við spá okkar, eða 13,8% af veltu en við spáðum um 14,0%. Fjármagnsliðir voru þó um eina milljón punda umfram spá okkar, vegna gangvirðisbreytingar á framvirkum samningi, og því nam spáskekkjan í fjármagnsliðum um 1,1 milljón punda. Samkvæmt stjórnendum var salan á heildina litið í fjórðungnum undir væntingum sem má rekja til Oasis og Whistles," sagði greiningardeildin.