SoftBank hyggst selja breska félagið Arm, sem framleiðir örgjörva, til Nvidia fyrir 40 milljarða dollara, andvirði 5.466 milljarða króna. Samningurinn er ekki enn í höfn. SoftBank greiddi 32 milljarða fyrir félagið árið 2016.

Talið er að greitt verði fyrir Arm með handbæru fé auk hlutabréfa í Nvidia og herma heimildir Financial Times að SoftBank verði um leið stærsti hluthafinn í Nvidia.

Markaðsvirði Nvidia fór nýlega yfir virði Intel og varð félagið því verðmætasti framleiðandi örgjörva í heimi, metið á um 300 milljarða dollara. Markaðsvirði Tesla, verðmætasta bílaframleiðanda heims, er um 347 milljarðar dollara. Yfirtaka Nvidia á Arm gæti valdið áhyggjum samkeppnisyfirvalda.

Viðskiptamódel Arm er ekki hefðbundið. Félagið framleiðir ekki örgjörva sjálf heldur snýr vinna Arm að hönnun örgjörvanna sem önnur félög, líkt og Nvidia, nota fyrir sína framleiðslu. Arm fær síðan þóknun fyrir en viðskiptavinir félagsins eru til að mynda Apple, Samsung og Huawei.