Óli Valur Steindórsson, fyrrverandi forstjóri túnfiskseldisfyrirtækisins Umami Sustainable Seafood, segir að félagið hafi verið tekið yfir í óvinveittri yfirtöku.

Búið er að segja upp flestum toppunum í Umami eða þeir farnir annað eftir að rekstrarerfiðleikar blöstu við fyrirtækinu um síðustu áramót. Þar á meðal er Óli Valur sem hætti skyndilega í desember eftir að hafa stjórnað stofnun og uppbyggingu fyrirtækisins frá árinu 2010.

Óli Valur heldur því fram, í tölvubréfi til Viðskiptablaðsins, að Umami hafi verið tekið yfir í óvinveittri yfirtöku. Hann var farinn frá félaginu í desember og ekki fengust skýringar á ástæðum þess þegar fréttasíðan Undercurrent news, sem sérhæfir sig í fréttum af fyrirtækjum í sjávarútvegi, leitaði eftir þeim.

Í fréttum Undercurrent news segir að hluti lánardrottna í Umami hefði gert veðkall í desember síðastliðnum þegar forsendur lánasamninga höfðu brostið. Við það eignaðist Róbert Guðfinnsson, athafnamaður sem nú er búsettur á Siglufirði, 11,7% í félaginu eða sjö milljónir hluta. Japanskt dreifingarfyrirtæki fyrir sjávarafurðir eignaðist andvirði 21,8% hlutafjár með sama hætti tíu dögum síðar í desember. Eftir þetta átti Róbert samanlagt 16,8% í félaginu að því er fram kemur í Undercurrent news.