Þau fyrirtæki sem bankar eignast yfir 40% eignahlut í eiga að veita reglulegar upplýsingar um rekstur félagsins eins og það sé skráð á skipulegan verðbréfamarkað. Þetta kemur fram í þingmannafrumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi fyrir páska. Fyrsti flutningsmaður er Guðlaugur Þór Þórðarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins en meðflutningsmenn eru Eygló Harðardóttir, Kristján Þór Júlíusson, Margrét Tryggvadóttir, Ólöf Nordal, Unnur Brá Konráðsdóttir.

Í lögum um verðbréfaviðskipti er fjallað um þær reglulegu upplýsingar sem útgefendum verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, eins og Kauphöllinni, ber að birta opinberlega, en það eru ársreikningur, árshlutareikningur vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins og greinargerð frá stjórn.

Einnig bera félögin skyldur til að birta viðbótarupplýsingar vegna nýrra lána og upplýsingar um breytingar á stofnsamningi eða samþykktum. Einnig er að finna í lögunum ákvæði sem lúta að upplýsingum sem útgefendum hlutabréfa og útgefendum skuldabréfa ber að veita. Lagt er til í frumvarpi þingmannanna að félög í eigu fjármálafyrirtækis lúti þessum skörpu reglum um upplýsingaskyldu eftir því sem við á.

„Markmið með lagabreytingu þessari er að stuðla að auknu gagnsæi, jafnræði og bættri samkeppnisstöðu á þeim mörkuðum þar sem að minnsta kosti einn samkeppnisaðili er kominn í eigu fjármálafyrirtækis. Nýju bankarnir, NBI hf., Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og dótturfélög þeirra, svokölluð eignaumsýslufélög, hafa nú tekið við eignarhaldi og rekstri hinna ýmsu fyrirtækja sem eiga í verulegum fjárhagsvandræðum. Fjármálafyrirtækin eiga útistandandi kröfur á fyrirtækin sem þau hafa talið betur tryggðar með yfirtöku á hlutafé í félögum þessum en með því að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Mörg dæmi eru um þetta fyrirkomulag en helst má nefna eignarhald NBI hf. á Húsasmiðjunni gegnum eignaumsýslufélag sitt, Vestia, og eignarhald Arion banka hf. gegnum eignaumsýslufélag sitt á Högum, auk eignarhalds Íslandsbanka hf. á Icelandair Group," segir í greinargerð með frumvarpinu.