Á fyrstu sex mánuðum ársins voru bandarísk félög viðriðin samruna og yfirtökur fyrir um 1,74 billjónir dollara í heildina og hefur sú upphæð aldrei mælst hærri. Þetta er umtalsverð aukning frá því í fyrra, þegar þessi upphæð nam hálfri billjón dollara fyrir sama tímabil og árið 2019 þegar upphæðin var 1,28 billjónir dollara. Wall Street Journal greinir frá.

Ástæðan fyrir þessu gífurlegu magni af samrunum og yfirtökum er sambland samverkandi þátta. Fyrirtæki hafa þurft að laga sig að breyttu neytendamynstri í faraldrinum og nýjum áherslum. Á móti kemur að greitt aðgengi að fjármagni og lágir vextir hafa gert fyrirtækjum auðveldara fyrir að grípa þau tækifæri sem í boði eru. Einnig hefur handbært fé fyrirtækja aukist hratt undanfarið ár samfara sterkri afkomu. Til að mynda nærri tvöfaldaðist handbært fé félaga í S&P 500-vísitölunni frá fyrsta fjórðungi ársins 2019 til fyrsta fjórðungs þessa árs.

Þá eru fyrirtæki jafnframt að gera stærri yfirtökur en undanfarin ár. Fleiri eins milljarðs dollara yfirtökur voru gerðar á nýafstöðnu sex mánaða tímabili en samanburðartímabilin 2019 og 2020. Meðal þeirra má nefna 8,5 milljarða dollara yfirtöku Amazon á kvikmyndaveri MGM, 43 milljarða dollara samruna WarnerMedia og Discovery , kaup Etsy á netnytjamarkaðnum Depop á 1,6 milljarða og kaup Visa á sænska fjártæknifyrirtækinu Tink .

Þá hafa umsvif sérhæfðra yfirtökufélaga (SPAC) virkað sem olía á eldinn. Það sem af er ári hafa þessi félög sótt um 100 milljarða dollara. Þar af sótti SPAC félag Bill Ackmann um fjóra milljarða dollara, en félagið keypti nýverið 10% hlut í Universal á fjóra milljarða dollara.