Margir fjárfestar telja að yfirtökutilboð Alcoa í Alcan sé til marks um það sem koma skal: Enn fleiri yfirtökur og sameiningar í áliðnaði sem og á öðrum hrávörumörkuðum. Nauðsyn þess að fyrirtæki á hrávörumarkaði hafi umsvif um heim allan þykir mikil og hún kann að vera hvati að frekari sameiningum. Í umfjöllun Dow Jones Newswires um þann markað eru leiddar að því líkur að eftirfarandi fyrirtæki kunni að verða tekin yfir á næstu misserum: Lonmin, U.S Steel og First Quantum Minerals. Jafnframt kemur fram í fréttinni að stærri fyrirtæki gætu hugsanlega gert tilboð í Alcoa, sem hefur sett fram óvinveitt yfirtökutilboð í samkeppnisaðila.

Hækkanir á hlutabréfum í Alcan og Alcoa í kjölfar yfirtökutilboðs þess fyrrnefnda bendir til þess að fjárfestar á markaði taki fréttum af samþjöppun á álmarkaðinum fagnandi. Má gera ráð fyrir að kaup Alcoa á Alcan muni auka hagnað Alcoa fljótt og þau bjóða einnig upp á rekstrarsparnað. Þetta leiðir af sér að líklegt þykir að stærri álframleiðendur komi til með að líta Alcoa hýru auga verði af yfirtöku þess á Alcan. Sú staðreynd að mikil eftirspurn er eftir áli í heiminum, en gert er ráð fyrir að eftirspurnin muni tvöfaldast á næstu fimmtán árum, ásamt því mati sérfræðinga að yfirtökumöguleikar í geiranum séu takmarkaðir, kann að hraða samrunaferli í geiranum. Slík samþjöppun mundi jafnframt tryggja þeim álframleiðandum sem eftir standa enn sterkari stöðu þegar kemur að því að hafa áhrif á framboðshliðina við verðmyndun.