Leon Black, stofnandi Apollo Group, græddi 546,3 milljónir dala. Keppinautur hans, Stephen Schwarzman í Blackstone, fékk 374,5 milljónir dala. Henri Kravis og George Roberts í KKR fengu meira en 150 milljónir dala á mann á meðan Bill Conway, David Rubenstein og Daniel d’Aniello, stofnendur Carlyle, fengu samtals 750 milljónir dala.

Þessar gríðarlega háu launagreiðslur, þótt þær séu vissulega undantekningar, eru til marks um almennan viðsnúning hjá framtakssjóðafyrirtækjum. Nýtt líf hljóp í hlutabréfamarkaði í fyrra og gátu sjóðirnir því loks selt fyrirtæki sem þeir hafa átt lengi, mörg þeirra voru keypt fyrir hrun fyrir háar fjárhæðir. Þá eru lífeyrissjóðir, sjóðir í eigu erlendra ríkja, tryggingafélög og auðugar fjölskyldur aftur farin að treysta framtakssjóðum fyrir fé sínu. „Menn eru í góðu skapi því þeir geta loksins selt fyrirtæki og grætt peninga,“ sagði Kevin Albert, sem hefur unnið í framtakssjóðageiranum í þrjátíu ár, á ráðstefnunni Super Return í Berlín. Ráðstefnan er haldin árlega og er fyrir fólk sem starfar í geiranum.

„Seðlabankinn er að prenta peninga og fjárfestar eru tilbúnir að taka áhættu. En mikið af þessu virkar bólukennt. Við höfum séð þetta áður, árin 2007 og 2008, rétt fyrir hrunið.“ Eftir fjögur mögur ár tókst framtakssjóðafyrirtækjum að afla 485 milljarða dala frá fjárfestum í fyrra, sem er 26% aukning frá árinu 2012. Stærstu sjóðirnir, sem fyrir ekki svo löngu síðan voru sagðir úreltar leifar bólutímans, hafa náð að snúa við blaðinu. Apollo aflaði 18,4 milljarða dala í fyrra, 20% meira en fyrirtækið aflaði árið 2008, rétt fyrir hrun. Carlyle aflaði 13 milljarða dala og Warburg Pincus aflaði 11,2 milljarða. Í Evrópu, sem hefur verið að laða til sín fjárfesta nú þegar útlit er fyrir að skuldakreppunni sé að ljúka, aflaði CVC Capital Partners tæplega 11 milljarða evra.