Yfirtökunefnd Kauphallar Íslands hefur sent frá sér tvenn tilmæli. Annars vegar um greinargerð stjórnar um yfirtökutilboð og hins vegar um efni tilboðsyfirlita.

Í tilmælum Yfirtökunefndar segir að í tilboðsyfirliti skuli m.a. vera upplýsingar um hve mikinn atkvæðisrétt, áhrif eða hluti tilboðsgjafi hafi öðlast beint eða óbeint. Einnig skuli koma fram hámarks- og lágmarkshlutfall eða magn hluta sem tilboðsgjafi ætlar að eignast ef um valfrjálst tilboð er að ræða; verð sem miðað er við í tilboðinu; upplýsingar um fjármögnun tilboðs; upplýsingar um hvernig greiðsla skuli fara fram; á hvaða degi hlutir skuli afhentir; önnur skilyrði sem tilboðið kann að vera háð; gildistími tilboðs; hvað tilboðsmóttakanda beri að gera til að samþykkja tilboðið; samantekt tilboðsgjafa um framtíðaráætlanir fyrir félagið; upplýsingar um væntanlega samninga við aðra um að nýta atkvæðisrétt í félaginu; upplýsingar um hvers konar hlunnindi og greiðslur frá tilboðsgjafa og samstarfsaðilum hans til stjórnarmanna og stjórnenda þess félags sem tilboð tekur til og að lokum upplýsingar um þau lög sem gildi varðandi samninga milli tilboðsgjafa og hluthafa vegna tilboðs og um lögbæra dómstóla.

Í tilmælum nefndarinnar um efni greinargerðar stjórnar segir að í henni skuli koma fram:

Rökstutt álit stjórnar á yfirtökutilboði og skilmálum þess; rökstutt álit á framtíðaráformum tilboðsgjafa; rökstutt álit á því hvaða áhrif tilboð hefur á hagsmuni félagsins; rökstutt álit á því hvaða áhrif tilboðið hefur á stjórnendur og starfsmenn félagsins og álit fulltrúa starfsmanna.