Yfirtökunefnd hefur ákveðið að fjalla um FL Group [ FL ] sem sérstakt mál í ljósi þeirra breytinga sem urðu fyrir skemmstu á hluthafahópi og valdahlutföllum í félaginu. Jafnframt hefur verið ákveðið að formaður nefndarinnar, Viðar Már Matthíasson, lagaprófessor, víki vegna hugsanlegra hagsmunaárekstra. Er það í samræmi við þær starfsreglur nefndarinnar að frá þeim tíma gildi hæfisreglur stjórnsýslulaga. Í hans stað kemur Stefán Már Stefánsson, prófessor.

Nefndin fundaði fyrir fáeinum dögum um málefni FL Group og var á þeim fundi afgreitt bréf til FL Group og stærstu hluthafa félagsins, þar sem þeim er gerð grein fyrir reglum þeim er lúta að yfirtöku og þýðingu tengsla og samstarfs í því sambandi.

Á fundinum var jafnframt ákveðið að yrði mál FL Group tekið fyrir sem sérstakt mál myndi

formaður nefndarinnar, Viðar Már Matthíasson, lagaprófessor, víkja sæti sökum þess að systir hans á hlut í FL Group. Viðar Már hefur þegar tilkynnt starfsmanni nefndarinnar að hann muni víkja úr sæti meðan á meðferð málsins stendur.

Nefndin tekur í framhaldinu til athugunar hvort yfirtökuskylda hafi skapast með nýorðnum breytingum á eignarhaldi í FL Group og er þá einkum horft til þess hvort hagsmuna- eigna – og stjórnunartengsl á milli stærstu hluthafa, þeirra helst Baugs Group, Oddaflugs, Fons og Materia Invest, leiði til yfirtökuskyldu í samræmi við að eignarhlutur skyldra aðila megi ekki fara yfir 40%. Nefndin hefur lagt kapp á að ljúka meðhöndlun málsins hið fyrsta og er gert ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir innan tveggja vikna.