Yfirtökunefnd hefur ákveðið að hefja vinnu við athugun á eignatengslum og annars konar hagsmunatengslum hluthafa í skráðum félögum í Kauphöll Íslands. Að sögn Viðars Más Matthíassonar, formanns nefndarinnar, þá hefur nefndin ákveðið að leita umsagnar og heimildar Persónuverndar til þess að halda úti slíkri skrá.

"Við höfum ákveðið að hafa samband við Persónuvernd til þess að við séum ekki að halda og safna upplýsingum sem fara í bága við reglur um persónuvernd. Við munum haga endanlegu skipulagi verksins í samræmi við niðurstöðu eða afstöðu Persónuverndar."

Að sögn Viðars Más telur nefndin að það sé nauðsynlegt að hafa aðgang að upplýsingum um eigna- og hagsmunatengsl. Hann sagði að það stafaði af því að yfirtökureglur byggðust að hluta til á því, að ef tiltekin hagsmuna- og eignatengsl væru til staðar þá jafngilti það samstarfi. "Við viljum reyna að kortleggja það, í það minnsta í grófum dráttum, hvað þetta er, bæði hér á landi og annars staðar. Það er tilefni þess að við förum af stað með þetta."

Viðar Már sagði einnig að það hefði sýnt sig að það væri mjög tímafrekt fyrir nefndina að þurfa að byrja öll mál á því að afla sér upplýsinga um eignatengsl. "Við viljum því vinna tíma með einni heildarathugun sem þarf síðan aðeins að betrumbæta eftir því sem við á þegar einstök mál koma upp. Það er tilefni þess að við förum af stað. Það er til að geta verið fljótari í viðbragðinu. Við höfum í sjálfu sér ekki átt erfitt með að afla þessara upplýsinga en það tekur tíma. Með þessu væntum við þess að spara okkur sporin í framtíðinni."