Yfirtökunefnd var lögð niður í júní sl. þegar stofnsamningur nefndarinnar til þriggja ára rann út.

Viðar Már Matthíasson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, gegndi formennsku í nefndinni allan starfstíma hennar. Hann segir ástæðuna fyrir starfslokunum stafa m.a. af breytingum sem urðu á hóp stofnaðila nefndarinnar.

„Þá hefur markaðurinn tekið miklum breytingum síðan nefndin tók til starfa og það hefur kannski verið mat stofnaðila að ekki væri lengur sama þörf fyrir hana, sér í lagi hvað varðar mat á yfirtökuskyldu,“ segir Viðar Már.

Níu aðilar stóðu af stofnsamningi nefndarinnar, þar á meðal Kauphöll Íslands, Samtök fjármálafyrirtækja, Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið.

Viðar Már segist ekki vera í aðstöðu til að leggja mat á hvort þörf sé fyrir nefndina en segir starfsemi hennar hafa verið töluverða allt fram undir það síðasta.

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir að nefndin hafi verið sett á laggirnar í tilraunaskyni „og nú þegar verkefninu sé lokið sé reynslan ekki nægilega góð til að halda áfram.“