Yfirtökunefnd samþykkti á fundi sínum nýverið meginreglur um ráðgjöf nefndarinnar, en hægt er að óska eftir ráðgjöf hennar um hvort yfirtökuskylda myndast við fyrirhuguð kaup á hlutafé, á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti. Reglur Yfirtökunefndar eru svohljóðandi:

?Þegar óskað er ráðgjafar nefndarinnar er mikilvægt að hafa eftirfarandi hugfast:

1. Að ráðgjöf Yfirtökunefndar um einstök tilvik hlýtur alltaf að miðast við tilgreindar forsendur hverju sinni. Sé forsendum breytt, kann niðurstaða ráðgjafarinnar að verða önnur.

2. Að lagðar séu fyrir nefndina allar upplýsingar um þann, sem hyggst eignast hlut eða auka við hlut sinn í félagi, sem skráð er í Kauphöll Íslands (hér eftir skráð félag), svo og hluti hans í öðrum félögum.

3. Ef fleiri en einn aðili hyggst kaupa hlut eða auka hlut sinn í skráðu félagi, er nauðsynlegt að þær upplýsingar, sem greinir í 2. tl. liggi fyrir um þá alla.

4. Upplýsingar um hvort kaup á hlut í skráðu félagi séu gerð að undangengnum samningum, samráði eða samskiptum við aðra hluthafa, eða fyrirsvarsmenn þeirra.

5. Upplýsingar um hvort kaup á hlut eða aukning hlutar í skráðu félagi séu gerð að undangengnum samskiptum við fyrirsvarsmenn hins skráða félags.

6. Sá sem leitar ráðgjafar Yfirtökunefndar skuldbindur sig um leið til þess að afhenda nefndinni þá samninga sem hann gerir í framhaldi um hluti eða atkvæðisrétt í skráðu félagi og um fjármögnun kaupanna.

7. Að sá sem leitar ráðgjafar Yfirtökunefndar veiti nefndinni aðrar þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegt að leita eftir til að geta sinnt beiðni um ráðgjöf.?