Yfirtökunefnd er að skoða eignarhald FL Goup og þá hvort að yfirtökuskylda stærstu eigenda félagsins hafi stofnast. Þetta er fyrsta málið sem kemur inn á borð nefndarinnar, sem tók til starfa 1. júlí síðastliðinn. Í samtali við Árnínu S. Kristjánsdóttur starfsmann nefndarinnar kom fram að vænst er að niðurstaða í málinu liggi fyrir í lok ágúst. "Sumir nefndarmenn og aðilar málsins eru enn í sumarfríum og hefur starf nefndarinnar verið slitrótt af þeim sökum," sagði Árnína.

Það er ekki að ástæðulausu að nefndin skoðar FL Group en töluverðar breytingar hafa verið að eignarhaldi félagsins að undanförnu. Málið snýr að því hvort að stærsti hluthafinn Hannes Smárason, stjórnarformaður félagsins, sé yfirtökuskyldur, en í dag á eignarhaldsfélag hans 35,5% hlut í félaginu. Yfirtökuskyldan, sem miðast við 40%, nær ekki einungis yfir það hvort einn aðili eigi meira en 40% heldur einnig aðilar honum tengdir.

Lög kveða um að ekki sé nægilegt að viðskiptatengsl séu á milli manna til að yfirtökuskylda hafi skapast heldur þarf einnig að vera fyrir hendi samkomulag og þá hugsanlega óformlegt um að tengdir ráðandi hluthafar hafi snúið bökum saman til að ná yfirráðum í félaginu. Fjárfestingafélagið Primus, sem tengt er Hannesi, átti um 4,9% hlut í félaginu og var félagið skráð fyrir þeim hlut á hluthafalista félagsins í síðustu viku. Á uppfærðum hluthafalista félagsins þann 8. ágúst er Primus hins vegar ekki skráð fyrir hlut í FL Group. Náin viðskiptatengsl eru á milli Hannesar og Baugs. Baugur átti 12,4% í félaginu en á nýjum hluthafalista er félagið ekki á meðal tíu stærstu hluthafanna. Hins vegar hefur hlutur Landsbankans aukist og er nú rúm 32%. Er bankinn nú næst stærsti hluthafinn í félaginu á eftir Oddaflugi Hannesar. Ekki náiðst í Hannes þegar Viðskiptablaðið reyndi að ná tali af honum.

Árnína sagði hlutverk nefndarinnar, sem stofnuð er að frumkvæði Kauphallarinnar og fleiri aðila á fjármálamarkaði, vera meðal annars að gefa álit sitt á því hvort aðilar séu yfirtökuskyldir eða ekki. "Nefndin hefur ekki lagastoð og hefur þannig ekki úrræði til að knýja fram breytingar ef nefndin telur að yfirtökuskylda hafi myndast. Ef engar breytingar verða á eignarhaldi er líklegt að FME taki málið til athugunar og kanni hvort yfirtökuskylda hafi myndast."