Yfirtökunefnd ákvað á fundi sínum sem lauk fyrir skömmu að ekki væri tilefni til að halda áfram athugun sinni á eignarhaldi FL Group, að óbreyttu. Á fundinum fór nefndin yfir þær breytingar sem orðið hafa á eignarhaldi FL Group miðað við 20 stærstu hluthafa félagsins þann 21. september sl. og flagganir frá 9. janúar sl. Þrír stærstu hluthafar félagsins eru nú Baugur, Fons og Oddaflug, samtals með um helmingshlut.

„Við kíktum á þetta og töldum ekki ástæðu til frekari aðgerða að sinni, þar eð að við teljum að þær tengingar á milli aðila sem þarf í lögum séu ekki fyrir hendi. Við teljum því þau lagaskilyrði ekki til staðar sem þarf til að yfirtökuskylda myndist, miðað við núverandi forsendur,” segir Stefán Már Stefánsson, prófessor, sem gegndi formennsku í nefndinni að þessu  sinni þar eð formaðurinn Viðar Már Matthíasson, prófessor, vék sæti vegna vanhæfis. Systir Viðars er hluthafi í FL Group.  Stefán segir að nefndin hafi gert forkönnun á eignarhaldi en ekki talið ástæðu til í framhaldi af því að efna til sérstakrar rannsóknar. Ekki hafi þótt ástæða til að kalla fyrir forsvarsmenn þeirra félaga sem ráða mestu í FL Group.„En við munum hins vegar hafa auga með félaginu ef eitthvað breytist á markaðinum og slíkt er alltaf inn í myndinni,” segir hann.