Á fundi Yfirtökunefndar fyrir stuttu voru tekin fyrir málefni tengd Hampiðjunni í kjölfar kaupa Atorku. Á fundinn mætti Bragi Hannesson, stjórnarformaður Hampiðjunnar hf. og með honum mætti Ásgeir Ragnarsson, lögmaður. Nefndin óskaði eftir upplýsingum frá Braga um viðskipti með hluti í Hampiðjunni hf. þann 18 nóvember síðastliðin.

Bragi veitti upplýsingar um hlutafjáreign í félaginu en kvaðst ekki geta veitt upplýsingar um tilefni eignabreytinganna en gerði ráð fyrir að kaupendur þeirra teldu félagið vera góðan fjárfestingakost. Bragi upplýsti að Atorka hf. hefði aukið hlutafé sitt verulega á síðustu mánuðum.

Fund yfirtökunefndar sátu þeir Viðar Már Matthíasson, formaður, Þór Sigfússon og Ólafur Nilsson, sem kemur í stað Magnúsar Gunnarssonar, sem komst ekki á fundinn og Árnína Steinunn Kristjánsdóttir, starfsmaður nefndarinnar, sem ritaði fundargerð.