„Þessar yfirtökur lánastofnana á húsnæði, og sú tilhneiging þeirra að vilja fara rólega í að selja þær á markaði, hægir fremur á verðlækkunarferlinu sem við höfum spáð fyrir um,“ segir Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands. Nú þegar hefur verðlækkun á fasteignamarkaði numið um 35% frá því þegar það var hæst, á haustmánuðum 2007. Seðlabankinn spáir því að verðið muni lækka enn meira, um 10 til 15%, fram á seinni part næsta árs. Nokkur óvissa er þó um þessa þróun, að sögn Þorvarðar Tjörva. Brugðið geti til beggja vona. „Verðlækkunarferlið hefur verið aðeins hægara en við spáðum og þar spilar inn í að nauðungasölum hefur verið frestað ásamt fleiri atriðum. Þegar á heildina er litið hefur þróunin verið í takt við okkar spá. Við erum að vinna að því núna að draga upp mynd af skuldastöðu heimilanna. Þar er margt sem þarf að skoða. Við höfum ekki fengið nákvæmar tölur frá öllum lánastofnunum um virði útlána en vonandi fer sú mynd að skýrast. Það skiptir miklu fyrir áætlanagerð og spár að hafa undirliggjandi upplýsingar sem nákvæmastar og bestar.“

Óljós skuldastaða heimila

Í febrúar 2009 áætlaði Alþýðusamband Íslands, og í raun Seðlabanki Íslands einnig, að skuldir heimila í landinu væru um 2.000 milljarðar. Miðað við 110.000 heimili gerir það um 18 milljónir að meðaltali, sem er há tala einkum ef horft er til þess að skuldsetningin á landsbyggðinni er oftar en ekki mun lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Skuldir vegna verðtryggðra lána voru þá um 1.400 milljarðar og vegna gengistryggðra lána, þar á meðal bílalána, voru um 370 milljarðar.

Önnur lán, svo sem yfirdráttarlán, koma svo til viðbótar. Þróun á fasteignamarkaði skiptir miklu máli þegar greining á eiginfjárstöðu og greiðsluhæfi fjölskyldna er metin, segir Þorvarður Tjörvi. Fleira kemur þó til eins og það hvernig útlán til heimila eru verðmetin í bókum endurreistu bankanna. „Það er ekki síst sú staða sem þarf að liggja fyrir þegar farið er yfir þessi mál og eftir atvikum ákveðið að grípa til aðgerða. Það er hvernig útlánin er metin í bókum endurreistu bankanna.“Eins og greint hefur verið frá í Viðskiptablaðinu voru útlánin færð frá gömlu bönkunum, Kaupþingi, Glitni og Landsbankanum, til þeirra nýju á að meðaltali um 44% afslætti. Aðgerðirnar sem bankarnir hafa boðið viðskiptavinum sínum upp á að undanförnu, þ.á.m. 25 prósenta afskriftir og færsla höfuðstóls niður í 110% af markaðsvirði íbúðar, hafa tekið mið af þessari niðurfærslu. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að íbúum Íslands fækki meira á þessu ári en því síðasta. Í fyrra fækkaði íbúum um rúmlega 5.000, umfram aðflutta. Seðlabankinn gerði ekki ráð fyrir því í sínum spám heldur horfði frekar til þess að fækkun íbúa landsins gæti komið fram á þessu ári. Þróun íbúafjölda, einkum á höfuðborgarsvæðinu, getur haft töluverð áhrif á fasteignamarkaðinn, segir Þorvarður Tjörvi. „Íbúaþróun hefur áhrif á markaðinn þar sem framboð af húsnæði inn á markað getur aukist nokkuð fari fleiri frá landinu en koma til þess. Það er þó erfitt að segja með nákvæmum hætti um hvernig þessi mál þróast, eins og gefur að skilja.“

Sjá nánar umfjöllun í Viðskiptablaðinu um fasteignir í eigu lánastofnanna sem kom út í gær.